12/11/2012

Um ÆSKR

Skrifstofa ÆSKR

Skrifstofa ÆSKR er í Grensáskirkju, Háaleitisbraut 66, 103 Reykjavík.
Sími 861 1625
Netfang aeskr@kirkjan.is
Æskulýðsfulltrúi ÆSKR er Kristján Ágúst Kjartansson
ÆSKR er á facebook og má finna síðuna hér.

Hlutverk og staða ÆSKR

Hlutverk ÆSKR er að annast þjálfun fyrir leiðtoga í kirkjulegu starfi með ungu fólki, sjá um og skipuleggja sameiginleg verkefni safnaða fyrir ungt fólk og taka að sér ráðgjöf um æskulýðsstarf, jafnt innan sem utan kirkjunnar. ÆSKR er einnig ætlað að koma fram fyrir hönd kirkjunnar í verkefnum sem snerta málefni ungs fólks.

Saga Æskulýðssambandsins

Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum rekur tilurð sína til umræðna á sjöunda áratugnum um að gott væri að stofna slíkt samband syðra vegna þess hversu vel hefði til tekist með sambandið á Norðurlandi, í Hólastifti hinu forna. Þann 9. febrúar 1966 stingur séra Jón Bjarman upp á þessu og eins Guðmundur Einarsson 3. janúar 1973, svo að dæmi séu nefnd úr umræðum æskulýðsnefndar þjóðkirkjunnar. Séra Þorvaldur Karl Helgason taldi raunhæft að stofna ÆSK syðra (14. feb. 1977).
(Heimildir: samantekt Péturs Björgvins Þorsteinssonar, vegna endurnýjaðra umræðna að morgni 21. aldarinnar).

Þann 7. janúar 1987 er æskulýðsnefndin enn að ræða málin. Þá eru til orðin nokkur æskulýðsfélög sem gengur nokkuð illa að starfa saman að sögn séra Solveigar Láru Guðmundsdóttur. Launamál æskulýðsstarfsmanna eru í ólestri. Umræðan var auðvitað víðfeðmari, tengdist umræðu um æskulýðsstarf kirkjunnar almennt, sem stjórnað var frá biskupsstofu.

Draumur fólks var um að æskulýðsfélög mættu verða til í öllum kirkjum Reykjavíkur og nágrennis.

ÆSKR var stofnað 17. febrúar 1988 Stjórn þess skipuðu Ragnheiður Sverrisdóttir djákni, formaður, Unnur Halldórsdóttir djákni, gjaldkeri, séra Gylfi Jónsson ritari, Ólafur Ragnar Ólafsson og Sigurður Grétar Sigurðsson meðstjórnendur. Ragnheiður var starfsmaður ÆSKR í hálfu starfi til að byrja með.

Ragnheiður Sverrisdóttir, æskulýðsfulltrúi í Fella- og Hólakirkju, Magnús Erlingsson æskulýðsfulltrúi á biskupsstofu og Sigurður Grétar Sigurðsson tóku þátt í móti í Svíþjóð sem þau þökkuðu fyrir með bréfi dags. 12. okt. 1988, og varðveitt er sem fyrsta bréf sent frá ÆSKR.

Í apríl 1989 sendi Ragnheiður Sverrisdóttir formaður ÆSKR bréf til sóknarpresta í Reykjavíkurprófastsdæmi þar sem verið er að undirbúa dagskrá 1990. Þá voru 8 æskulýðsfélög starfandi á svæðinu.

Í nóvember 1989 tók ÆSKR þátt í átakinu gegn ofbeldi með Rauða krossinum, tómstundaráði Kópavogs, ÍTR, æskulýðsráði Hafnarfjarðar og útideild unglinga í Reykjavík.

Í mars 1990 var sýndur söngleikurinn Líf og friður.

Í nóvember 1990 er Ragnheiður titluð formaður og framkvæmdatjóri ÆSKR.

1991 eru prófastsdæmin orðin tvö og fólk er búið að fara á námskeið í tímastjórnun og vill halda stutta og markvissa fundi með próföstum til að þeir hitti einn fulltrúa frá hverju æskulýðsfélagi og heyri hugmyndir þeirra um starfið.

Í árslok 1991 var starf framkvæmdastjóra auglýst laust til umsóknar. Ragnheiður sat til 31. okt. 1991.

Á aðalfundi 24. september 1991 í Seltjarnarneskirkju var Adda Steina Björnsdóttir ráðin framkvæmdatjóri.
Vigfús Hallgrímsson starfaði í hennar stað þar til hún kom úr barnseignarleyfi 1. apríl 1992
1. júlí 1993 tók séra Þórhallur Heimisson við starfi framkvæmdastjóra.
1. ágúst 1994 varð Sigrún Óskarsdóttir framkvæmdatjóri og skrifstofan flutt úr Laugarneskirkju í Hallgrímskirkju.
15. júlí 1995 varð Haukur Ingi Jónasson framkvæmdastjóri. Auglýst var eftir starfsmanni til ýmissa verka. Ásta Björk Ólafsdóttir var ráðin og vann hún hálft árið 1996 í samvinnu við Hitt húsið. Þetta gafst mjög vel.
1. ágúst 1997 tók Halldór Elías Guðmundsson við starfinu og var að því tilefni vígður sem djákni.
15. júlí 2000 tók Yrsa Þórðardóttir við starfinu og gegndi því fram yfir sumarið 2002.
Engin var ráðin í stað Yrsu en í upphafi árs 2003 var Þorsteinn Arnórsson fengin til að annast ýmis verkefni fyrir sambandið.
Haustið 2003 var Dagný Halla Tómasdóttir ráðin sem Æskulýðsfulltrúi ÆSKR.
1. janúar 2015 tók Kristján Ágúst Kjartansson við og gegnir því enn.