Óskað eftir umsögnum um reglur um samskipti við trúar- og lífsskoðunarfélög

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er eftirfarandi frétt. Endilega skoðið þetta og athugið hvort þið getið sent inn umsögn.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti þann 4. október 2011 reglur um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila Reykjavíkurborgar við trúar- og lífsskoðunarfélög. Skóla- og frístundasviði var falið að úrskurða ef ágreiningur risi um túlkun reglnanna og jafnframt að meta  reynslu af reglunum innan árs frá setningu þeirra í samráði við mannréttindastjóra, fulltrúa úr skóla-, foreldra- og háskólasamfélaginu auk fulltrúa trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Lítið hefur verið  um að ágreining varðandi túlkun reglnanna, en ljóst er að ágreiningur er um efni þeirra. Skóla- og frístundasvið hefur í þremur eftirfarandi tilvikum séð ástæðu til að senda skólastjórnendum í leik- og grunnskólum og forstöðumönnum frístundaheimila  Reykjavíkurborgar bréf í kjölfar athugasemda sem sviðinu bárust, þar sem ákvæði reglnanna voru ítrekuð og skýrð nánar í þeim tilvikum sem það þótti nauðsynlegt:

  • Skóla- og frístundasvið féllst ekki á þá málsmeðferð sem Gídeonfélagið lagði til í október 2011 við afhendingu Nýja testamentisins til grunnskólabarna. Fengu skólastjórar grunnskóla Reykjavíkurborgar afrit af bréfi sviðsins til Gídeonfélagsins, þar sem fram kemur að skólastjórum grunnskóla í Reykjavík sé ekki heimilt að senda tilkynningu til foreldra um  komu Gídeonfélagsins í skólann og tilboð um afhendingu Nýja testamentisins til barna þeirra,  Gídeonfélaginu sé aftur á móti heimilt að fá afnot af skólahúsnæði utan venjulegs skólatíma í samráði við skólastjóra og annast sjálft kynningu til foreldra  um afhendingu á Nýja testamentinu til nemenda og kynningu á Gídeonfélaginu. Skólastjórum sé heimilt að beiðni Gídeonfélagsins að auglýsa slíkan atburð í auglýsingagátt á heimasíðu skólans.
  • Í nóvember  á síðastliðnu ári vöknuðu ýmsar spurningar hjá skólastjórnendum um hvernig haga mætti samstarfi skóla og kirkju í aðdraganda jóla. Skóla- og frístundasvið sendi bréf þar sem áréttuð voru  ákvæði d- og h- liða reglnanna um heimsóknir nemenda í kirkjur og sígilda söngva, dansa, leiki og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar og halda sessi sínum í árstíðabundnum skemmtunum og að þar á meðal séu jólasálmar og helgileikir. Skóla- og frístundasvið tók  fram að  ekkert væri því til fyrirstöðu að helgileikir sem nemendur hefðu hingað til fengið að setja upp í kirkjum í borginni yrðu áfram settir þar upp.
  • Af gefnu tilefni þótti skóla- og frístundasviði í upphafi þessa skólaárs rétt að minna skólastjóra og forstöðumenn á ákvæði  b-liðar reglnanna um að um almenna kynningu gagnvart foreldrum og börnum á viðurkenndu barna og æskulýðsstarfi trúfélaga skuli fara líkt og með kynningu á hliðstæðum frístundatilboðum frjálsra félagasamtaka. Skólastjórar og forstöðumenn voru minntir á að þeir væru því ábyrgir fyrir því að jafnræðis væri gætt þegar óskað væri eftir slíkum kynningum.

Ekki hefur risið ágreiningur um framgreinda  túlkun skóla- og frístundasviðs á reglunum.

Reglur um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila við trúar- og lífsskoðunarfélög – Til grundvallar þessum reglum sem gefnar voru út á árinu 2011 liggur sá vilji að tryggja rétt barna til þátttöku í skólastarfi óháð þeirri trúar- og lífsskoðun sem þau alast upp við.

Skóla- og frístundasvið óskar hér með eftir umsögn um hvernig ofangreindar reglur hafa reynst á síðastliðnu ári í  samskiptum leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila Reykjavíkurborgar og trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Óskað er eftir að umsögn berist fyrir 7. desember n.k. og sendist til sfs@reykjavik.is eða til skóla- og frístundasviðs Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík.

Bréf Ragnars Þorsteinssonar sviðsstjóra þessa efnis.