12/11/2012

Farskóli leiðtogaefna

Farskóli leiðtogaefna fyrir unglinga í æskulýðsstarfi kirkjunnar á Reykjavíkursvæðinu.

Farskóli leiðtogaefna er starfræktur af ÆSKR, ÆSKÞ, ÆNK og Biskupsstofu fyrir áhugasama unglinga á aldrinum 15-17 ára sem aðstoða í starfi með börnum og unglingum innan kirkjunnar.
Markmið með farskóla leiðtogaefna er styrkja og efla þátttakendur í leiðtogastarfinu og að undirbyggja faglegt starf með hæfum og góðum leiðtogum í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Viðfangsefni námskeiðsins er m.a. fræðsla um kristna trú, kirkjuna, starf hennar og fleira. Um leið og áhersla er lögð á að sinna hverjum þátttakanda og uppbyggingu hvers og eins er mikið lagt upp úr því að skapa gott samfélag í hópnum, meðal annars með áherslu á helgistundir.

Nemendur farskólans eru valdir og sendir af söfnuðum sínum en Farskólinn er ætlaður sem stuðningur við söfnuðina í því að byggja upp leiðtoga og fá þau þjálfun í sínum heimasöfnuði samhliða námskeiðinu.
Námskeiðið er fyrir unglinga sem starfa í kirkjum í Reykjavíkur- og Kjalarnessprófastsdæmum og flyst á milli þeirra kirkna sem þátttakendur koma frá. Þær kirkjur sem senda leiðtogaefni á námskeiðin þurfa því að vera tilbúnar að vera með eina samveru. Starfsmaður námskeiðsins heldur utan um námskeiðið og sér um fræðsluna. Æskulýðsfulltrúar , prestar eða djáknar viðkomandi kirkju taka þátt í stundinni eftir þörfum.
Kennsluefninu er skipt upp í A og B hluta og er gert ráð fyrir að hvor hluti taki eitt ár í yfirferð með rúmlega 10 samverustundum á hvoru ári með glæsilegri lokasamveru í lokin þar sem þátttakendur útskrifast.