Farskóli leiðtogaefna 2013

Farskóli leiðtogaefna fyrir unglinga í æskulýðsstarfi kirkjunnar.

Farskóli leiðtogaefna hefur unnið sér fastan sess í leiðtoganámi kirkjunnar. Námskeiðið er miðað við áhugasama unglinga á aldrinum 15-17 ára sem aðstoða í starfi eða hafa hug á að starfa með börnum og/eða unglingum innan kirkjunnar.

Markmið með farskóla leiðtogaefna er að að undirbyggja faglegt starf með hæfum og góðum leiðtogum í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Viðfangsefni námskeiðsins er m.a. fræðsla um kristna trú, kirkjuna, starf hennar, auka þekkingu á félagsstörfum og fleira.  Um leið og áhersla er lögð á að sinna uppbyggingu hvers og eins þátttakanda er mikið lagt upp úr því að skapa gott samfélag í hópnum, meðal annars með áherslu á helgistundir.

Farskólinn er ætlaður sem stuðningur við söfnuðina í að byggja upp leiðtoga. Því er mikilvægt að samhliða farskólanum sé leiðtogaefnunum sinnt af þeim sem bera ábyrgð á æskulýðsstarfi í söfnuðinum og að þeim séu falin verkefni við hæfi í starfinu svo þau fái þjálfun í sínum heimasöfnuði samhliða námskeiðinu.

Námskeiðið er fyrir unglinga sem starfa í kirkjum í Reykjavíkur- og Kjalarnessprófastsdæmum og flyst á milli þeirra kirkna sem þátttakendur koma frá. Þær kirkjur sem senda leiðtogaefni á námskeiðin þurfa því að vera tilbúnar að vera með eina samveru. Starfsmaður námskeiðsins heldur utan um námskeiðið og sér um fræðsluna. Æskulýðsfulltrúar , prestar eða djáknar viðkomandi kirkju taka þátt í stundinni eftir þörfum.

Kennsluefninu er skipt upp í A og B hluta og er gert ráð fyrir að hvor hluti taki eitt ár í yfirferð. Ekki skiptir máli hvor hlutinn er tekinn á undan en æskilegast er að þátttakendur taki báða hluta námskeiðsins.

Námskeiðið hefst 9. október kl.18.00 í Grensáskirkju. Leiðbeinandi er Jónína Sif Eyþórsdóttir MA nemi í blaða- og fréttamennsku og æskulýðsfulltrúi í Hjallakirkju. Skólagjöld eru kr. 14.500. sem er fyrir kennslunni og léttum veitingum á hverri samveru.

Kennslan fer öllu jafna fram á miðvikudagskvöldum en auk þess verður gist yfir nótt í kirkju á haustönn, aðstoðað í Hjálparstarfinu í desember og langur laugardagur í janúar. Mætingarskylda er á námskeiðinu.

Einungis er hægt að skrá sig í skólann á vegum kirkju og fara skráningar fram hjá Kristínu Arnardóttur á fræðslusviði Biskupsstofu í síma 5284065 eða á netfangið kristin.arnardóttir hjá kirkjan.is

Síðasti skráningardagur er mánudagurinn 7. október.

Þegar skráning liggur fyrir munu verða sendar út upplýsingar um staðsetningu og dagsetningar samveranna.