HEILRÆÐI FYRIR STARFSFÓLK OG SJÁLFBOÐALIÐA
Í BARNA- OG UNGLINGASTARFI ÞJÓÐKIRKJUNNAR
Hafðu í huga í starfi með börnum og unglingum að:
- þú ert í föruneyti barnsins eða unglingsins á leið þess til að verða fullvaxta.
- Að þú ert samferða og það felur ekki í sér að vita alltaf betur eða geta meira, heldur hlusta og vera nálæg/ur.
- það getur haft mikið að segja í starfi að hafa skopskyn, en það má aldrei vera gróft, tvírætt eða niðrandi fyrir aðra.
- þú hefur sterkari stöðu en börnin og unglingarnir sem þú vinnur með. Varastu að misnota þér hana.
- það er ekki góð hugmynd að sjá ein/n um samverur með börnum eða unglingum eða fara ein/n með hóp í ferðalag. Hafðu vit fyrir yfirmönnum þínum ef þeir ætla að senda þig eina/n.
- börnin vilja að þú sért hinn fullorðni en taktu virkan þátt í þeirri dagskrá sem er í boði og sýndu henni áhuga.
- eiga gott samstarf við foreldra og forráðamenn og upplýsa þá um starfið og það sem þar fer fram.
- stundum er betra að standa fyrir utan leiki sem fela í sér mikla snertingu.
- mikilvægt er að gefa af sér en það merkir ekki að starfsmaður geri börn og unglinga að trúnaðarmönnum sínum.
- vera vel undirbúin/n fyrir samverur. Börnin sjá fljótt ef starfsmaður er óundirbúinn.
- helgihaldið er mikilvægur þáttur í starfinu og oft þarf að laga það að þeim hópi sem unnið er með. Mundu að það sem barnið upplifir og lærir í samræðum skilar meiru en langar ræður.
- þekkja og virða takmörk þín og leita þér hjálpar ef illa gengur. Margt getur komið uppá í starfinu sem krefst mikils af þér. Hikaðu ekki við að leita ráða hjá þeim sem þú treystir.
- sjaldnast fáum við að velja samstarfsfólkið okkar. Lykillinn að góðu samstarfi er að ræða þau vandamál sem upp koma og vera tilbúin/n að líta í eigin barm.
- þú ert aldrei ein/n á ferð, Jesús er alltaf með í för. Mundu eftir því að þú og Guð þurfið tíma saman. Mikilvægt er að biðja fyrir starfinu og vera í samfélagi við annað trúað fólk.